Fótbolti

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool eru vægast sagt ósáttir með ákvörðun félagsins.
Stuðningsmenn Liverpool eru vægast sagt ósáttir með ákvörðun félagsins. Vísir/Football 365

Stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru brjálaðir út í Peter Moore framkvæmdastjóra félagsins fyrir það að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda. Hvort Moore einn hafi tekið ákvörðunina er hæðið en hann er allavega skotspónn stuðningsmanna félagsins að svo stöddu.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag þá ákváð Liverpool, líkt og Newcastle United, Tottenham Hotspur, Bournemouth og Norwich City að nýta sér úrræði stjórnvalda og senda hluta starfsfólks síns í leyfi. 

Það þýðir að ríkisstjórn Bretlands borgar nú 80% launa starfsfólksins á meðan Liverpool borgar aðeins 20% af heildarlaunum þeirra.

Stuðningsmenn félagsins eru vægast sagt ósáttir með þetta og hefur Peter Moore fengið það óþvegið á samfélagsmiðlinum Twitter í nær allan dag.

Henry Winter, íþróttablaðamaður hjá Times Sport, lét einnig óánægju sína í ljós. 

Reiði stuðningsmanna snýst að því að yfirvöld standa nú þegar í ströngu þar sem starfsfólk sjúkrahúsa vinnur gífurlega yfirvinnu sökum COVID-19 sem og margir eiga á hættu að missa vinnuna sökum faraldursins. 

Fólk er þar af leiðandi ekki ánægt með að Liverpool, fyrirtæki sem veltir fleiri milljónum punda, sé að nýta sér þetta neyðarúrræði og þar af leiðandi að taka pening af fólki, fyrirtækjum og samtökum sem nauðsynlega þurfa á honum að halda.


Tengdar fréttir

Liverpool nýtir neyðarúrræði stjórnvalda

Enska knattspyrnufélagið Liverpool, efsta lið úrvalsdeildarinnar, hefur ákveðið að senda hluta starfsmannahóps síns í leyfi nú þegar algjört fótboltahlé er í Englandi vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×