Erlent

Finnst ekki við hæfi að bera andlitsgrímu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Staðfest smit eru alls 290 þúsund í Bandaríkjunum.
Staðfest smit eru alls 290 þúsund í Bandaríkjunum. AP/Alex Brandon

Tæplega 1.500 manns létust af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum í gær. Er þetta mannskæðasti sólarhringurinn frá upphafi faraldursins þar í landi. Ríkisstjóri New York ríkis segir að brátt verði það uppiskroppa með öndunarvélar.

Alls hafa nú ríflega 7.400 manns látist úr veirunni í Bandaríkjunum og þarf af tæp 1.900 í New York þar sem staðan er einna verst. Flest tilfelli kórónuveirunnar greinast nú í Bandaríkjunum og eru staðfest smit þar alls 290 þúsund.

Ríkisstjórn Trumps hefur beint því til borgara að nota klúta eða grímu til að hylja vit sín. Eru þessi tilmæli skref í því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Forsetinn segir þetta valfrjálsa aðgerð en sjálfur ætli hann ekki að taka upp á slíku.

„Þetta er valfrjálst. Ég mun líklega ekki gera það. Ég sit á forsetaskrifstofunni við fallega skrifborðið þar og finnst ekki við hæfi að ég sé með andlitsgrímu þegar ég býð velkomna forseta, forsætisráðherra, einræðisherra, konunga og drottningar. Ég sé mig ekki í þeirri stöðu,“ sagði Donald Trump.

Líkt og áður segir er staðan í Bandaríkjunum einna verst í New York. Ríkisstjórinn Andrew Cumo segir að brátt verði ríkið uppiskroppa með öndunarvélar. Þegar Trump var spurður hvort hann ætlaði að tryggja að New York hefði nægilega margar vélar sagði hann að ríkið ætti að vera vel sett. Bætti hann því við að New York ríki hefði haft tækifæri í gegnum tíðina til að panta öndunarvélar.

„Þeir höfðu tækifæri til að panta öndunarvélar í áranna rás. En þeir kusu að gera það ekki. Við vorum til staðar og hjálpuðum þeim. Ríkisstjóri New York ríkis er þakklátur fyrir hjálpina. Við eigum alríkisbirgðir. Við getum notað þær fyrir ríkin eða okkur sjálf. Alríkisstjórnin notar þær,“ sagði Donald Trump.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×