Körfubolti

„Tekur lang mest á andlegu hliðina“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þeir Kári og Vilhjálmur í Ólafssal í dag.
Þeir Kári og Vilhjálmur í Ólafssal í dag. Skjáskot/Sportpakkinn

Guðjón Guðmundsson, Gaupi, ræddi við Kára Jónsson, leikmann Hauka í Domino´s deild karla í körfubolta og Vilhjálm Steinarsson, styrktarþjálfara liðsins, í Sportpakka Stöðvar 2 fyrr í kvöld. Gaupi heimsótti þá félaga í tóman Ólafssal í íþróttahúsi Hauka að Ásvöllum í Hafnafirði.

Innslagið má sjá í heild sinni í spilaranum neðst í fréttinni.

„Það tekur lang mest á andlegu hliðina og að það sé tekið undan löppunum á manni það sem maður er vanur að gera á hverjum degi tekur á,“ sagði Kári um áhrifin sem æfingabannið hefur á íþróttafólk. Kári hélt svo áfram að ræða þessa skrítnu tíma.

„Maður finnur leiðir og aðra hluti að gera. Maður þarf að sjá virkilega mikið um sig sjálfur því það er ekki lengur lið á bakvið þig sem sér um að þú sért að gera hlutina almennilega.“

„Já þetta er það! Ég ætla ekki að ljúga neinu, þetta er frekar leiðinlegt. Var allt í lagi til að byrja með en er orðið helvíti þreytt ef maður getur sagt það,“ sagði Kári að lokum aðspurður hvort þetta væru ekki einfaldlega leiðinlegt.

„Það er enginn búinn að undirbúa sig undir þetta“

Vilhjálmur Steinarsson, styrktarþjálfari Hauka, segir alls ekki einfalt að halda úti æfingum fyrir okkar besta íþróttafólk.

„Við megum ekkert umgangast leikmenn. Þeir eru að koma hingað inn [í Ólafssal] og fá að æfa einir. Þeir þurfa að panta tíma, spritta bolta, ganga frá eftir sig og sjá til þess að allt sé hreint og fínt áður en næsti leikmaður kemur,“ segir Vilhjálmur um óeðlilegar aðstæður og æfingar þeirra sem æfa körfubolta.

„Ég sem styrktarþjálfari þarf að útbúa plön fyrir mína leikmenn, þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Sumir eru agaðir og geta fylgt þessu eftir á meðan aðrir eru vanir liðs fyrirkomulagi og því utanumhaldi sem því fylgir og fúnkera mögulega ekki í svona fjardæmi. Sem betur fer eru það fáir og við þurfum að aðlagast.“

Í spilaranum hér að neðan er innslag Gaupa sem og mögnuð karfa Kára gegn Keflavík hér um árið.

Klippa: Kári æfir einn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×