Erlent

Japanir af­létta neyðar­á­standi í flestum héruðum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Dotonbori í stórborginni Osaka.
Frá Dotonbori í stórborginni Osaka. Getty

Yfirvöld í Japan hafa aflétt neyðarástandi í 39 af 47 héruðum landsins. Þetta er gert eftir mikla fækkun í fjölda þeirra sem smitast af kórónuveirunni í landinu.

Í frétt BBC segir að neyðarástand sé þó enn í gildi í höfuðborginni Tókýó, Osaka og á eyjunni Hokkaido þar sem daglega koma fram nokkur fjöldi smita.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði fyrr í dag að smitfjöldinn nú sé einungis um einn sjöundi af þeim fjölda sem var þegar faraldurinn í landinu var í hámarki. Forsætisráðherrann hvatti almenning þó áfram til að bera andlitsgrímur og virða fjarlægðarmörk.

Abe sagðist vonast til að hægt verði að aflétta neyðarástandinu í þeim héruðum sem eftir standa fyrir lok mánaðar.

Japönsk stjórnvöld sættu nokkurri gagnrýni fyrir viðbrögð sín í upphafi faraldursins eftir að mikill fjöldi smita kom upp á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, sem lá lengi við byggju í Yokohama.

Skráð smit í landinu eru nú rúmlega 16 þúsund og eru þar alls 678 dauðsföll nú rakin til sjúkdómsins Covid-19.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×