Samningi Reykjaneshafnar og Thorsil ehf. um uppbyggingu kísilverksmiðju á Helguvík verður sagt upp. Stjórn Reykjaneshafnar fól hafnarstjóra að rifta samningnum frá og með mánaðamótum á fundi sínum í dag.
Víkurfréttir segja frá ákvörðun stjórnar Reykjaneshafnar í dag. Stjórnin líti svo á að Thorsil hafi vanefnt samningsskyldur sínar í ljósi þess að félagið hafi ekki innt af hendi gjöld sem því bar samkvæmt samningum.
„Á tímum óvissu og atvinnubrests er þörf á allri uppbyggingu til að vega upp á móti óheillavænlegri þróun. Stjórn Reykjaneshafnar telur óforsvaranlegt að bíða endalaust í óvissu á meðan nýir aðilar óska eftir samræðum um framtíðaruppbyggingu,“ hafa Víkurfréttir upp úr afgreiðslu stjórnarinnar.
Lóðar- og hafnarsamningurinn við Thorsil var undirritaður í apríl árið 2014. Í honum fólst að Reykjaneshöfn tryggði Thorsil lóðaraðstöðu vegna fyrirhugaðar kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.