Töluvert minni umferð er út úr höfuðborginni en hefur verið undanfarin ár um páskana að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þó var umferð út úr borginni töluvert meiri í gær en hefur verið undanfarna daga. Almannavarnir hafa biðlað til fólks að halda sig heimavið um páskana og ferðast ekki á milli landshluta.
Helmingi færri bílar fóru um Hellisheiði og Kjalarnes í gær en óku þar um á skírdag í fyrra. Í gær fóru 6.760 bílar um Hellisheiði, bæði í austur- og vesturátt en á sama tíma í fyrra voru þeir 10.463. Í gær óku 5.343 bílar um Kjalarnes en í fyrra voru þeir 12.364.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með meiri viðbúnað á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi síðustu daga en Hörður Lilliendahl, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að töluvert meiri umferð hafi verið í gær en síðust daga. Lögreglumenn á bifhjólum séu staðsettir víða til að fá fólk til að hægja á sér og aka á réttum hraða.
Þá sér umferðarlögreglan einnig um að stýra umferð í bílakjallaranum í Hörpu þar sem verið er að taka sýni vegna COVID-19. Lögreglan sjái svo um að koma sýnunum í greiningu þegar þess þarf.