Ummæli Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins, í hlaðvarpi ViðskiptaMoggans hafa vakið verulega athygli.
Þar sagði hún afar ósennilegt að opnast muni fyrir flæði fólks til og frá landinu fyrr en hægt verður að bólusetja fólk við kórónuveirunni.

Þessi ummæli Lilju urðu þess valdandi að atvinnulífið, sér í lagi þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, veltu fyrir sér hvort að þessi ummæli Lilju væru í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að aðgerðum gagnvart veirunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í ummæli Lilju á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar sagði að ákvörðun þess efnis hefði ekki verið tekin en hugsa þyrfti leiðir til að takmarka að veiran komi hingað til lands aftur. Mögulega gæti þurft að takmarka ferðir til og frá landinu til að koma í veg fyrir það.
Fréttastofa bar ummæli Lilju Alfreðsdóttur undir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Var Bjarni spurður hvort þessi ummæli Lilju endurspegluðu afstöðu ríkisstjórnarinnar.
Í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar kemur fram að ákvörðun um þessa stefnu hafi ekki verið tekin innan ríkisstjórnarinnar.