Fréttir

Landspítalinn lokaður fyrir gestum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Landspítalinn
Landspítalinn

Tekið hefur verið fyrir heimsóknir á Landspítalann til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19. Aðstoðarmaður forstjóra spítalans segir lokað verði fyrir heimsóknir á meðan neyðarstig almannavarna er í gildi, og jafnvel lengur.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, staðfesti þetta í samtali við Vísi, en RÚV greindi fyrst frá. Hún segir lokunina í gildi á öllum starfsstöðvum spítalans, og að heimsóknir verði ekki leyfðar nema í mjög sérstökum tilfellum. Slík tilfelli væru þá til dæmis ef sjúklingur væri deyjandi eða ef um barn sem ekki gæti verið án foreldra sinna væri að ræða. Meta yrði slík tilfelli hverju sinni.

„Markmiðið er að sjá til þess að hægt sé að takmarka öll möguleg smit og kemur í kjölfar þess að við sjáum samfélagssmit og við erum að bregðast við því,“ segir Anna Sigrún, en í dag var greint frá því að tvö svokölluð innanlandssmit kórónuveirunnar hefðu greinst hér á landi. Það þýðir að minnst tveir einstaklingar hafa smitast hérlendis, en ekki erlendis, líkt og var raunin fyrri smit sem hafa greinst.

„Öllu jafna erum við að reyna að sjá til þess að sem fæstir komi á spítalann sem á ekki þangað beint erindi,“ segir Anna Sigrún.

Þá hefur hjúkrunarheimilið Grund fylgt fordæmi spítalans og sett á heimsóknarbann frá og með klukkan 17 í dag. Aðstandendum er bent á að hringja á viðeigandi deildir, óski það upplýsinga um ástvini sína eða þess að komast í samband við viðkomandi. Eins hefur hjúkrunarheimilið Seltjörn á Seltjarnarnesi gripið til þess ráðs að banna heimsóknir um óákveðinn tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×