Innlent

Lands­réttur stað­festir gæslu­varð­halds­úr­skurð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms.
Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þremur mönnum sem Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í varðhald á sunnudag vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á skipulagðri brotastarfsemi.

Alls voru sex manns handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu um síðustu helgi. Fimm þeirra voru úrskurðaðir í varðhald til 31. janúar og einn til 27. janúar.

Fram kom í tilkynningu lögreglu að rannsóknin snúi meðal annars að framleiðslu á fíkniefnum og peningaþvætti. Þá var ráðist í húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu um liðna helgi þar sem lagt var hald á fíkniefni, vopn og fjármuni.

Fréttastofa greindi frá því í gær að einn hinna handteknu sé Einar Einarsson, áður Einar Jökull Einarsson, sem hlotið hefur tvo þunga dóma fyrir fíkniefnabrot, nú síðast í desember.

Þá var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir framleiðslu á átta kílóum á amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði. Árið 2008 hlaut hann svo níu og hálfs árs langan dóm fyrir tilraun til þess að smygla umtalsverðu magni af fíkniefnum til landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×