Íslandsmeistarar Vals unnu nauman tveggja marka sigur á ÍBV í 14. umferð Olís deildar kvenna í dag. Lokatölur 21-19 Valsstúlkum í vil en ÍBV var lengi vel yfir í leiknum.
Eyjastúlkur voru fyrir leikinn í næstneðsta sæti deildarinnar og höfðu tapað fyrri leik liðanna með 19 marka mun, 33-14. Það var hins vegar allt annað að sjá til ÍBV í dag og ljóst að liðið ætlaði að selja sig dýrt.
Þær byrjuðu af miklum krafti og voru mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik, Valur náði hins vegar að jafna áður en flautan gall og staðan því 11-11 er liðin gengu til búningsherbergja.
Í síðari hálfleik snéru Íslandsmeistarar Vals leiknum sér í vil. Valur getur þakkað Írisi Björk Símonardóttur fyrir stigin tvö en hún varði alls 22 skot í markinu og var með 54% markvörslu. Aðeins tvær vikur eru síðan hún gerði sér lítið fyrir og var með 63% markvörslu í sigir Vals á KA/Þór.
Fór það svo að Valur vann leikinn með tveggja marka mun, 21-19.
Ásdís Þóra Ágústsdóttir var markahæst í liði Vals með fimm mörk en þær Lovísa Thompson og Díana Dögg Magnústóttir gerðu fjögur mörk hvor.
Handbolti