„Mig grunar að kvikan fari öll í innskot í efri hluta skorpunnar,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, einn kunnasti jarðvísindamaður Íslendinga, í eldfjallabloggi sínu um umbrotin við fjallið Þorbjörn. Þar bendir Haraldur á að kvikuinnskot séu algengari en eldgos.
„Kvika sem leitar upp úr möttlinum og í átt að yfirborði Íslands getur annað hvort gosið á yfirborði eða myndað innskot í jarðskorpunni rétt undir yfirborði,“ segir Haraldur og telur einkum tvennt koma til greina á Reykjanesskaga:
„Annað hvort leitar kvikan frekar fljótlega upp á yfirborð og gýs, oftast sem sprungugos af basalt kviku. Eða þá að kvikan treðst inn á milli jarðlaga í efri hluta skorpunnar og myndar innskot, án þess að gos verði, en myndar bólu eða landris á yfirborði.“
Haraldur segir að hafa beri í huga í þessu sambandi að eðlisþyngd kvikunnar sé frekar há. Þá leiti kvikan sér oft leiða innan skorpunnar og finni sér farveg, án þess að gjósa. Hann nefnir nýleg dæmi eins og atburðina við Upptyppinga fyrir austan Öskju árin 2007 til 2009, en þar var mikið landris og skjálftavirkni á 15 til 17 km dýpi.
„Mikill titringur var þá lengi í öllum jarðvísindamönnum á Íslandi, en ekki kom gos. Sennilega myndaði kvikan stóran gang af basalti á þessu dýpi. Sömu sögu er að segja með atburði undir Hengli árin 1994 til 1998 og svo nýlega í Krísuvík árið 2009: staðbundin skjálftavirkni, landris og merki um að innskot hafi orðið í skorpuna án þess að gjósa,“ segir Haraldur.
„Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála í grennd við Þorbjörn, en mig grunar að kvikan fari öll í innskot í efri hluta skorpunnar,“ eru lokaorð greinar Haraldar, sem hann birti á vefnum þann 02.02.2020 kl. 02.22.

Í eldgosinu í Holuhrauni árið 2014 vakti Haraldur athygli þegar hann spáði því í október það ár, á grundvelli stærðfræðiútreikninga, að gosinu lyki í lok febrúar eða byrjun mars 2015. Sú spá rættist og gat vart verið nákvæmari.
Sjá hér: Spá Haraldar rættist um goslok
Haraldur benti á það í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 í febrúar 2015 að sprungukerfi Reykjanesskagans teygðu sig til úthverfa Reykjavíkur. Sprungur í Heiðmörk, Norðlingaholtshverfi, við Rauðavatn og Árbæjarhverfi tengdust sennilega Krýsuvíkureldstöðinni.
-Þannig að við gætum fengið eldstöð uppi í Árbæ?
„Það er ekki óhugsanlegt,” svaraði eldfjallafræðingurinn.
Sjá má þáttinn hér: Undur í eldgarði Snæfellsness.
Fréttaviðtal úr þættinum má sjá hér: