Í Bandaríkjunum líkt og annars staðar er öll deildarkeppni í óvissu og engin ákvörðun verið tekin um hvort, og þá hvenær, boltinn byrjar aftur að rúlla í NBA körfuboltanum.
Ef marka má ESPN er búið að taka ákvörðun um að leikmenn fái 25 daga til að undirbúa sig áður en deildin fer aftur af stað.
Það er Brian Windhorst, blaðamaður ESPN, sem greinir frá þessu en hann segir jafnframt að leikmenn muni fá 11 daga til að æfa sjálfir og liðin fái í kjölfarið 14 daga æfingabúðir.
Ekkert hefur verið leikið í NBA síðan 11.mars síðastliðinn og hefur Adam Silver, framvæmdastjóri deildarinnar, gefið út að ákvörðun um framhaldið verði ekki tekin fyrr en í maí.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort deildarkeppnin verði kláruð eða það sem líklegra þykir, að farið verði beint í úrslitakeppnina.