Innlent

Ekki þurfti að kalla út hjúkrunarfræðinga á undanþágu í nótt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti en nóttin gekk vel á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Mynd úr safni.
Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti en nóttin gekk vel á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Mynd úr safni. Vísir/Ernir
Ekki þurfti að kalla út hjúkrunarfræðinga á undanþágu frá verkfalli á bráðamóttöku Landspítalans í nótt þar sem nóttin var óvenju róleg. Þetta segir stjórnandi læknir á bráðamóttökunni. 



Lítið hefur reynt á verkfallið frá því að það hófst á miðnætti. Varað hefur verið við því af stjórnendum spítalans að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu með aðgerðunum.



Svanur Sigurðsson, stjórnandi læknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir að fyrsta nótt verkfallsins hafi gengið vel, enda hafi lítið verið að gera.



„Það er ekki farið að reyna almennilega á verkfallið þar sem álagið var óvenju lítið í nótt,“ segir hann. Þannig að það þurfti ekki að kalla út mannskap á undanþágu? „Nei það þurfti ekki núna þessa fyrstu nótt verkfalls.“



Svanur segir óljóst hvað muni gerast þegar álag á bráðamóttökuna tekur að aukast að nýju með morgninum.



„Það er aldrei að vita. Mér skilst að það muni einhver pláss á spítalanum loka út af skorti á mönnun á deildum og það gæti orðið afar erfið staða ef síðan gengur illa að koma sjúklingum inn á deildir sem þurfa innlagnir. Það mun teppa bráðamóttökuna innan ekki mjög langs tíma. Ég ber ákveðinn kvíðboga fyrir því,“ segir hann.



Erfitt er að spá fyrir um hvenær verkfalli hjúkrunarfræðinga lýkur en í gær sagði formaður félags hjúkrunarfræðinga í samtali við fréttastofu að enn væri langt á milli aðila í deilunni. Enginn samningafundur fór fram í deilunni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×