Erlent

Minnst 22 látnir í óeirðum og mótmælum í Venesúela

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Epa
Minnst 22 hafa látið lífið í óeirðum og mótmælum í Venesúela á undanförnum vikum. Mótmælendur ætla út í hvítum fötum í dag til að heiðra þá sem hafa dáið, en níu létu lífið þegar þau reyndu að ræna bakarí í Caracas á fimmtudaginn. Þar að auki voru þrír skotnir til bana en minnst þrettán dóu í borginni þann dag.

Ítrekað hafa átök komið upp á milli mismunandi fylkinga. Annars vegar eru mótmælendur og hins vegar eru stuðningsmenn Nicolas Maduro, forseta Venesúela. Maduro hefur kallað mótmælendur glæpamenn og hryðjuverkamenn og hafa öryggissveitir beitt vatnsfallbyssum og táragasi gegn þeim.

Venesúela hefur á undanförnum árum gengið í gegnum gífurleg efnahagsvandræði með verðlækkun olíu og ríkir mikill skortur í landinu. Óðaverðbólga hefur gert gjaldmiðil landsins nánast verðlausan.

Sjá einnig: Sjálf­skapar­víti Venesúela: Sósíalíska drauma­ríkið sem koll­varpaðist í mar­tröð

Andstæðingar Maduro segja hann ætla að reyna að selja hluta af gullforða ríkisins til að halda völdum sínum. Leiðtogi þingsins, Julio Borges, hefur sent nokkrum af stærstu fjármálastofnunum heims bréf þar sem hann hvetur starfsmenn þeirra til að veita Maduro ekki líflínu, biðji hann um hana.

Gjaldeyrisforði ríkisins er um tíu milljarðar dala, samkvæmt Washington Post, en um 75 prósent hans er í formi gullstanga. Gjaldeyrisforðinn hefur ekki verið lægri í um fimmtán ár. Á þessu ári mun ríkið þurfa að greiða um sex milljarða dala í skuldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×