Stofnun Cargolux varð til þess að þrjúhundruð manna Íslendinganýlenda myndaðist í Lúxemborg. Fjöldi íslenskra flugmanna og flugvirkja réði sig til starfa hjá félaginu og helstu stjórnendur voru Íslendingar, þeirra á meðal fyrsti forstjórinn, Einar Ólafsson. Íslenskur veitingastaður, Cockpit Inn, varð miðstöð félagslífsins og einskonar flugminjasafn.

Í sérstakri afmælisgrein á heimasíðu Cargolux er upphafið rakið til ársins 1969 þegar Jóhannesi Einarssyni, einum af framkvæmdastjórum Loftleiða, var falið það verkefni að selja eða leigja verðlitlar Rolls Royce-vélarnar, eða Monsana, Canadair CL 44 skrúfuþotur. Loftleiðir voru þá að stíga inn í þotuöldina með DC 8-þotum, voru með bækistöð í Lúxemborg og ráðamenn stórhertogadæmisins voru áhugasamir um nánara samstarf við íslensku frumkvöðlana.

Hugmynd Saléns gekk út á að nýta vélarnar um helgar til að fljúga með Skandinava í sólina til Spánar en nýta þær svo á virkum dögum í fraktflugi með ferska ávexti og grænmeti til Svíþjóðar. Jóhannesi leist ekki á hugmyndina, sagði of tímafrekt að víxla vélunum í hverri viku milli þess að vera farþega- eða fraktvélar, en lagði þess í stað til að þeir stofnuðu saman fraktflugfélag.
Jóhannes gerði Salén tilboð um að báðir aðilar myndu eiga 50% hlut í félaginu og samkomulag var handsalað. Loftleiðir og Salén stofnuðu félagið Sal-Loft en héldu síðan til viðræðna við yfirvöld í Lúxemborg, sem buðu flugvöll í hjarta Evrópu undir höfuðstöðvar nýja félagsins. Fyrsta flug Saloft var svo frá Lúxemborg í nóvember 1969 með hjálpargögn til Sao Tome fyrir Caritas, hjálparsamtök kaþólsku kirkjunnar.

Loftleiðir og síðar Flugleiðir áttu 33% hlutafjár í Cargolux fyrstu tólf árin. Stjórnendur Flugleiða ákváðu árið 1982 að taka ekki þátt í hlutafjáraukningu Cargolux og þynntist þá hlutur Íslendinga. Flugleiðir seldu svo afganginn árið 1985.

Móa Sigurðardóttir, forstöðumaður samskipta hjá Cargolux, segir að núna starfi alls 29 Íslendingar hjá Cargolux og sumir í lykilhlutverkum. Íslendinganýlendan er ennþá stór og áætlar hún að um þrjúhundruð Íslendingar séu núna búsettir þar. Fyrr á árum hafi allir Íslendingar í Lúxemborg tengst Cargolux en svo sé ekki lengur.
Saga Loftleiðaævintýrisins og stofnun Cargolux var rifjuð upp í viðtali við Jóhannes Einarsson á Stöð 2 fyrir þremur árum, sem sjá má hér: