Íslenski boltinn

Krakkamótin gætu farið fram með breyttu sniði í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frá leik á Símamótinu í fyrra.
Frá leik á Símamótinu í fyrra. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir ekki loku fyrir það skotið að stóru fótboltamótin fyrir yngri flokka gætu farið fram í sumar þrátt fyrir samkomubannið. Því verður aflétt í áföngum á næstu mánuðum. Þó hefur sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason, mælst til þess að ekki komi fleiri en tvöþúsund manns saman á þessu ári.

„Ég held að það sé alveg möguleiki að þetta geti orðið en væntanlega með breyttu sniði. Við áttum fund með yfirvöldum hverjar horfurnar væru og um frekari skýringar á reglunum,“ sagði Guðni í morgunþætti Rásar 1 og 2.

„Ég held að þetta snúist allt um að vera með sóttvarnaúrræði, hólfa niður fjölda iðkenda og áhorfenda, og gæta þess að smithætta verði ekki of mikil. Vonandi eru einhverjar leiðir til að koma til móts við þau sjónarmið. Vonandi verður hægt að framkvæma mótin með þeim hætti að það verði ásættanlegt miðað við þau úrræði sem eru í gangi.“

Keppni í Pepsi Max-deild karla átti að hefjast 22. apríl.vísir/vilhelm

Guðni ræddi einnig um Íslandsmótið í fótbolta og hvernig það yrði útfært. Hann segir mögulegt að Íslandsmótið hefjist síðari hluta júní. Eitt af því sem hefur komið til tals er að hefja mótið þá, þ.e. þeir leikir sem eru á dagskrá síðari hluta júní verði fyrstu leikir mótsins en leikirnir sem áttu að vera búnir verði færðir annað.

„Við byrjum væntanlega mótið eins og dagskráin var en setjum þá leikina sem ekki hafði náðst að spila aftan við eða komum þeim fyrir inn í mótinu. EM karla fer ekki fram í sumar og það gefur okkur svigrúm,“ sagði Guðni.

„Við eigum að koma þessu fyrir og gerum það. En að öllum líkindum þurfum við að spila aðeins lengur en annars. Það er eitthvað sem við getum vel tekist á við.“

Viðtalið við Guðna má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×