Erlent

Ítalía opnar fyrir ferðamönnum 3. júní

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kona gefur sér tíma til að finna ilm af blómum á leið sinni um Róm í gær. Strangar takmarkanir vegna kórónuveirunnar eru enn í gildi í landinu.
Kona gefur sér tíma til að finna ilm af blómum á leið sinni um Róm í gær. Strangar takmarkanir vegna kórónuveirunnar eru enn í gildi í landinu. Vísir/Getty

Stefnt er að því að opna landamæri Ítalíu fyrir ferðamönnum 3. júní en landið hefur nú verið lokað vegna faraldurs kórónuveiru í yfir tvo mánuði. Ferðalög innanlands verða leyfð þennan sama dag.

Um er að ræða afar stórt skref í tilslökunum á veiruaðgerðum ítalskra stjórnvalda. Faraldurinn hefur farið hörðum höndum um Ítalíu en tala látinna þar í landi af völdum veirunnar er sú þriðja hæsta á heimsvísu. Ítalía var einn af fyrstu viðkomustöðum kórónuveirunnar í Evrópu og þar var komið á hörðum aðgerðum strax í febrúar; útgöngubanni og landamæralokunum.

Tíðni nýgreindra smita hefur þó lækkað mjög á Ítalíu síðustu daga og strax í byrjun maí var verksmiðjum og almenningsgörðum leyft að opna á ný. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, skrifaði svo í dag undir tilskipun þess efnis að opna ætti landið á ný 3. júní.

Conte hefur lagt áherslu á að fara hægt í sakirnar við tilslakanir á veiruaðgerðum. Verslanir og veitingastaðir munu geta hafið starfsemi á ný 18. maí, að því gefnu að fjarlægðarviðmið séu viðhöfð, og þá mun messuhald hefjast að nýju sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×