Erlent

Eitraði fyrir sjálfri sér og ferða­fé­lögum sínum með blá­sýru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blásýra fannst í öllum tebollunum sem drukkið var úr.
Blásýra fannst í öllum tebollunum sem drukkið var úr. Lögregluyfirvöld á Taílandi

Blásýra fannst í tebollum á Grand Hyatt Erawan-hótelinu í Bangkok á Taílandi þar sem sex fundust látnir á þriðjudag. Einn af látnu er grunaður um að hafa eitrað fyrir hópnum.

Aðstoðarlögreglustjórinn Noppassin Poonsawat sagði á blaðamannafundi í morgun að fólkið hefði skráð sig inn á hótelið á mismunandi tímum yfir helgina og fengið úthlutað fimm herbergjum. Það átti að skrá sig út á mánudag en gerði það ekki.

Um var að ræða fjóra Víetnama; Thi Nguyen Phuong, 46 ára, eiginmann hennar Hong Pham Thanh, 49 ára, Thi Nguyen Phuong Lan, 47 ára, og  Dinh Tran Phu, 37 ára, og tvo Bandaríkjamenn; Sherine Chong, 56 ára, og Dang Hung Van, 55 ára.

Fólkið er sagt hafa komið saman í einu herbergjanna á mánudag og pantað mat. Chong tók á móti matnum og afþakkaði boð þjóns um að búa til te. Sagði þjónninn Chong hafa verið fámála og stressaða.

Skuldir líklega ástæða morðanna

Þegar allir voru komnir virðist herberginu hafa verið læst að innan en myndir af vettvangi sýna að maturinn var að stærstum hluta látinn óhreyfður. Hins vegar hafði verið drukkið úr öllum tebollunum, sem reyndust allir hafa innihaldið blásýru.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að Thi Nguyen Phuong og Hong Pham Thanh, sem áttu vegavinnufyrirtæki, lánuðu Chong tugi eða hundruð milljóna til að fjárfesta í sjúkrahúsframkvæmdum í Japan.

Þá virðist Dinh Tran Phu, sem var förðunarfræðingur, ráðinn af Chong fyrir ferðina, einnig hafa verið plataður til að fjárfesta í verkefninu. 

Srettha Thavisin, forsætisráðherra Taílands, heimsótti hótelið í gær og fyrirskipaði rannsókn á atvikinu, sem hann sagði einangrað og ekki ógn við þjóðaröryggi landsins. Þá freistaði hann þess að fullvissa almenning um að öryggi ferðamanna væri tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×