Innlent

Breytir dómkröfunni í samræmi við innborgun ríkisins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar. Vísir/Egill

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins þeirra sem sýknaðir voru af ákæru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir að bætur í málinu sem von er á frá ríkinu á grundvelli nýrra laga breyti ekki málarekstrinum. Guðjón hafi samþykkt bæturnar og krafa hans á hendur ríkinu muni lækka sem þeim nemur.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að búast megi við að bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum verði greiddar út síðar í þessum mánuði. Bæturnar verða greiddar á grundvelli nýsamþykktra laga, sem heimila að bætur á bilinu frá 15 til 224 milljónum til þriggja málsaðila sem enn eru á lífi, og til maka og barna hinna tveggja látnu.

Þá kemur greiðsla bóta á grundvelli laganna ekki í veg fyrir að bótaþegar höfði sérstakt bótamál fyrir dómstólum til heimtingar frekari bóta. Guðjón Skarphéðinsson hefur stefnt ríkinu til heimtingar bóta og þá krefst Kristján Viðar Júlíusson einnig bóta upp á 1,6 milljarða króna.

Frá fyrirtöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti.Vísir/Vilhelm

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns segir að ákvörðun ríkisins hafi ekki áhrif á málareksturinn sjálfan. Krafa hans, sem er rúmur einn milljarður króna, muni þó lækka.

„Umbjóðandi minn Guðjón Skarphéðinsson höfðaði mál gegn ríkinu fyrir alllöngu. Núna hefur ríkið ákveðið að borga upp í kröfurnar og af því leiðir að ég mun breyta dómkröfunum í samræmi við það og lækka þær sem nemur innborguninni.“

Í Fréttablaðinu kemur fram að Guðjón muni fá 145 milljónir króna í bætur frá ríkinu. Ragnar segir það ekki munu koma til með að breytast.

„Umbjóðandi minn, Guðjón, hefur samþykkt það, en þetta breytir engu um dómsmálið vegna þess að lögin gera ekki ráð fyrir því og heldur ekki tilboð forsætisráðherra að þetta sé fullnaðargreiðsla. Þetta er eingöngu innágreiðsla, uppígreiðsla eins og það er kallað.“

Guðjón stefndi ríkinu til greiðslu bótanna í júní síðastliðnum. Krafa hans var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október síðastliðnum og næsta fyrirtaka í málinu er nú í janúar.


Tengdar fréttir

Krafa ríkisins óbreytt um sinn

Fyrirtaka var í máli Guðjóns Skarphéðinssonar gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×