Innlent

Sigmundur lá frammi á gangi fyrir botnlangaaðgerð

Sylvía Hall skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir mikla þörf fyrir róttækar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu og nýtt skipulag í heilbrigðismálum. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Facebook þar sem hann greinir frá botnlangakasti sem hann fékk á dögunum.

„Fyrir nokkrum dögum kynntist ég stöðu heilbrigðiskerfisins af eigin raun, kostum þess og göllum. Kostirnir liggja umfram allt í því frábæra fólki sem starfar í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þetta fólk á hins vegar skilið að starfa við miklu betri aðstöðu en raun ber vitni,“ skrifar Sigmundur á Facebook.

Hann lýsir því hvernig hann beið á bráðamóttökunni áður en hann var fluttur í sjúkrarúm. Þá lá hann á ganginum í einhvern tíma áður en hann var fluttur í „litla kompu“ sem hann segist vera þakklátur fyrir. Að lokum var hann svo sendur í aðgerð vegna botnlangakasts.

„Aðgerðin gekk vel og ég er kominn heim en mér er hugsað til þess góða og færa fólks sem bjargaði mér og þarf áfram að vinna við slíkar aðstæður. Sérstaklega núna þegar ljóst er að áhrif kórónaveirunnar eiga eftir að skapa mikið álag fyrir heilbrigðisþjónustuna.“



Í stöðuskýrslu dagsins frá Almannavörnum vegna COVID-19 kom fram að nú þegar sé farið að undirbúa aðgerðir vegna álags á heilbrigðiskerfið. Í þeim felst meðal annars að færa heilbrigðisstarfsfólk til innan kerfisins þannig að hægt verði að manna nauðsynlegar stöður, panta fleiri öndunarvélar í gegnum útboð og fá inn fólk sem vinnur á einkareknum stofum. Þá sé einnig til skoðunar að kalla inn fólk sem er farið á eftirlaun.

Fimm starfsmenn á gjörgæsludeild Landspítala hafa greinst með veiruna og eru fimm aðrir á sömu deild í sóttkví. Á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag sagði Alma Möller landlæknir að tveir hjúkrunarfræðinganna hafi verið í skíðaferð þar sem þeir hafi líklegast smitast.

Þeir hafi svo að öllum líkindum smitað vinnufélaga sína á gjörgæsludeildinni eftir komuna til landsins. Búið væri að rekja smitin og væri nokkuð víst að sjúklingar hefðu ekki smitast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×