Innlent

Sex ára barn í hópi ferðamannanna við Langjökul

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Um 200 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út vegna björgunaraðgerða á Langjökli auk snjóbíla af höfuðborgarsvæðinu. Hér sést þegar verið er að setja einn þeirra á vörubíl til þess að flytja á staðinn.
Um 200 björgunarsveitarmenn voru kallaðir út vegna björgunaraðgerða á Langjökli auk snjóbíla af höfuðborgarsvæðinu. Hér sést þegar verið er að setja einn þeirra á vörubíl til þess að flytja á staðinn. vísir/jói k.

Lögreglan metur ástandið við Langjökul alvarlegt. Þar eru 39 ferðamenn strandaglópar ásamt tíu leiðsögumönnum frá ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Iceland.

Ferðamennirnir voru í vélsleðaferð með fyrirtækinu á Langjökli í dag og lentu í vandræðum vegna ófærðar og veðurs. Nokkur börn eru í hópi ferðamannanna og er það yngsta sex ára gamalt.

Björgunarsveitarmenn eru ekki enn komnir á staðinn en afar slæmt veður er á þessum slóðum og mjög þung færð.

Sjá einnig:Þrjú ár síðan sama fyrirtæki lagði í afdrifaríka ferð í vonskuveðri við Langjökul

 

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að ferðamennirnir séu nú komnir í skjól í tvo litla bíla.

Ekki er hægt að keyra þá í skálann við Skálpanes sem er í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem fólkið er en að minnsta kosti annar bíllinn er bilaður. Hluti af leiðsögumönnunum bíður eftir aðstoð fyrir utan bílana að sögn Sveins.

Búin að vera í vélsleðaferðinni síðan klukkan 13

Sveinn segir lögregluna vita lítið um ástandið á fólkinu en segir að gera megi ráð fyrir því að einhverjir séu með ofkælingu.

„Við vitum mjög lítið um ástandið á fólkinu í sjálfu sér og það er kalt og hrakið og búið að vera úti síðan klukkan eitt í dag. Það getur alveg verið orðið kalt og með ofkælingu. Það má gera ráð fyrir því en það er þó ekki vitað,“ segir Sveinn.

Aðspurður segir hann fólkið ekki metið í lífshættu eins og er en ástandið sé alvarlegt. Þá staðfestir hann að börn séu í hópi ferðamannanna, það yngsta sex ára gamalt.

Gul viðvörun hefur verið í gildi fyrir miðhálendið síðan klukkan 17 í dag en vélsleðaferðin hófst upp úr klukkan 13. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands á veður á svæðinu eftir að versna ef eitthvað er en viðvörunin gildir til klukkan 15 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×