Fótbolti

Fá endurgreitt ef þeir fá ekki að sjá Gylfa og félaga spila

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í baráttu við Douglas Luiz fyrr í vetur.
Gylfi Sigurðsson í baráttu við Douglas Luiz fyrr í vetur. vísir/getty

Everton hefur staðfest að þeir stuðningsmenn sem vilji fá endurgreiðslu á miðum sínum eiga rétt á því ef síðustu fimm heimaleikir liðsins í ensku úrvalsdeildinni fari fram á bak við luktar dyr.

Ólíklegt er að þeir leikir sem eftir eru í ensku úrvalsdeildinni verða leiknir fyrir framan áhorfendur og því hefur félag Gylfa Þórs Sigurðssonar gefið það út að þeir stuðningsmenn sem eiga miða á leikina eigi þrjá möguleika.

Þeir geta fengið miða sína endurgreidda, þeir geta látið peninginn fyrir miðunum ganga upp í miða á næstu leiktíð eða leggja málefninu Everton Community lið. Það er góðgerðastarfsemi innan félagsins sem styrkir mismunandi málefni innan Liverpool-borgar.

Everton átti heimaleiki eftir gegn Liverpool, Bournemouth, Aston Villa, Southampton og Leicester en útileiki gegn Norwich, Sheffield United, Tottenham og Wolves.

Everton er í 12. sæti deildarinnar með 37 stig en liðið á níu deildarleiki eftir á tímabilinu. Einungis fjögur stig eru upp í áttunda sæti deildarinnar og átta stigum frá fimmta sætinu en miðja deildarinnar er ansi þétt.

Gylfi hefur spilað 26 af 29 leikjum Everton á leiktíðinni og skorað í þeim eitt mark. Að auki hefur hann lagt upp tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×