Íslenski boltinn

Framarar sótt fjóra bita í næstu deild

Sindri Sverrisson skrifar
Framarar hafa nú boðið þá Kristófer Konráðsson og Arnar Daníel Aðalsteinsson velkomna í sínar raðir.
Framarar hafa nú boðið þá Kristófer Konráðsson og Arnar Daníel Aðalsteinsson velkomna í sínar raðir. Fram

Knattspyrnudeild Fram hefur nú staðfest komu tveggja leikmanna sem koma til félagsins frá Lengjudeildarliðum Grindavíkur og Gróttu. Áður hafði félagið fengið annan leikmann frá Grindavík og leikmann frá ÍR.

Hinn 26 ára gamli Kristófer Konráðsson kemur til Fram frá Grindavík, líkt og miðvörðurinn Sigurjón Rúnarsson hafði áður gert. Kristófer, sem er uppalinn hjá Stjörnunni, á að baki 135 meistaraflokksleiki og þar af 39 leiki í efstu deild. Þá lék hann 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af þrjá leiki fyrir U21-landsliðið.

Arnar Daníel Aðalsteinsson kemur svo til Fram frá Gróttu. Þessi tvítugi leikmaður á að baki sjö leiki fyrir U19-landslið Íslands og hefur spilað 52 leiki fyrir Gróttu í Lengjudeildinni, en er uppalinn hjá Breiðabliki.

Áður hafði Fram svo tilkynnt um komu Ólivers Elís Hlynssonar, sem einnig er tvítugur og kom frá ÍR.

Framarar hafa hins vegar kvatt leikmenn á borð við Jannik Pohl, Tiago Fernandes og Brynjar Gauta Guðjónsson.

Fram endaði í 9. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð, fimm stigum frá fallsæti eftir að hafa tapað fjórum síðustu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×