Skoðun

Meiri upplýsingar, betra aðgengi

Aron Leví Beck skrifar

Í heimi stjórnmálanna eru ótal atriði sem þarf sífellt að endurskoða, bæta, breyta eða laga. Verkefnin eru fjölbreytt, eins misjöfn og þau eru mörg. Í skipulags- og samgöngumálunum eru til að mynda ákvarðanir teknar frá því hvar ruslastampar eiga að vera yfir í hvar skuli byggja stórhýsi, skóla eða jafnvel ný hverfi. Umfangið er mikið og allt er þetta mikilvægt.

Þegar ég byrjaði í borgarstjórn var eitt sérstakt mál sem ég vissi að ég ætlaði mér að koma í gegn. Mér hefur verið þetta málefni hugleikið um nokkurt skeið þó það snerti okkur kannski ekki öll, eða við höldum það að minnsta kosti.

Almenningssamgöngur fyrir alla og bætt aðgengi fyrir fólk í strætisvagna borgarinnar.

Til eru stoppistöðvar í borginni sem eru illfærar fyrir fólk sem notar hjólastól, er með barnavagn eða er kannski orðið fótafúið. Þetta mál verður nú tekið föstum tökum og verður fyrsti áfangi í þessu verkefni unninn í sumar. Þ.e.a.s. safnað verður upplýsingum um aðgengi stoppistöðva, upplýsingum sem hægt er að nýta í strætó appið til þess að sjá hvaða stöðvar eru aðgengilegar og hverjar ekki og svo að sjálfsögðu er vinnunni svo fylgt svo eftir með því að bæta aðgengi á þeim stoppistöðvum sem þykja ekki aðgengilegar til hins betra.

Á þeim tíma sem ég hef verið í borgarstjórn hef ég tekið þátt í ýmsum málum á sviði velferðar-, samgöngu- og skipulagsmála. Þetta verkefni er mér samt sem áður afar hugleikið og fagna ég þessum frábæra áfanga!

Almenningssamgöngur eiga að vera fyrir alla og það er okkar verk, sem fulltrúar fólksins í borginni, að sofna aldrei á verðinum og halda áfram að gera Reykjavík að þeirri skemmtilegu og góðu borg sem hún er.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×