Skoðun

Hik er sama og tap!

Sandra Brá Jóhannsdóttir skrifar

Skaftárhreppur er eitt af þeim sveitarfélögum sem ljóst er að verða fyrir hlutfallslega mestu tekjutapi vegna afleiðinga Covid 19 líkt og fram hefur komið í greiningu Byggðastofnunar. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ýjað að því að sveitarfélögin komi ekki til með að finna fyrir tekjusamdrættinum fyrr en síðar á árinu. Það er hins vegar ekki raunin í tilfelli Skaftárhrepps amk þar sem sveitarfélagið er nú þegar farið að finna fyrir tekjusamdrætti. Ferðaþjónusta dróst saman um 14% milli áranna 2018 og 2019 sem skýrir að öllum líkindum tekjusamdrátt hjá Skaftárhreppi fyrstu fjóra mánuði þessa árs miðað við áætlun ársins. 

Sá tekjusamdráttur að viðbættum fyrirsjáanlegum tekjusamdrætti í útsvari næstu mánaða, lækkunar framlaga úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frestun á greiðslum gjalddaga fasteignagjalda gerir það að verkum að sveitarfélagið Skaftárhreppur hefur ekki bolmagn til að bíða til langs tíma eftir ákvörðunum stjórnvalda um sértæk úrræði. 

Fyrir Skaftárhrepp er hik stjórnvalda því sama og tap og óvissa um tekjur til að halda upp lögbundinni þjónustu er með öllu óásættanleg. Við treystum á að stjórnvöld vinni hratt og vel og komi með myndarlegum hætti að stuðningi við þau sveitarfélög sem mest eiga undir högg að sækja þessa daga.

Höfundur er sveitarstjóri Skaftárhrepps.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×