Innlent

Tveggja ára tvinnbíll fuðraði upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slökkviliðsmenn á Svínvetningabraut á sunnudaginn. Tvinnbíllinn í ljósum logum í bakgrunni.
Slökkviliðsmenn á Svínvetningabraut á sunnudaginn. Tvinnbíllinn í ljósum logum í bakgrunni. Róbert Daníel Jónsson

Tveggja ára gamall tvinnbíll fuðraði upp á Svínvetningabraut suðaustan af Blönduósi á sunnudag. Enginn slasaðist en bóndi sem varð vitni að brunanum segir hafa verið skuggalegt að sjá hve skammur tími leið frá því eldur kviknaði þar til bíllinn var að engu orðinn.

Aðdragandi brunans var sá að eigandi tvinnbílsins, tveggja ára Mitsubishi Outlander, kom fólki til aðstoðar vegna bíls sem var bilaður og lagt úti í vegakanti. Ekki tókst að koma bilaða bílnum í gang. Bauðst eigandi tvinnbílsins til að skutla fólkinu en ekki kom til þess. Áður en hægt var að ferja farþega bilaða bílsins um borð í tvinnbílinn kviknaði blossi.

Sigurvaldi Sigurjónsson, bóndi á Kárastöðum, ók fram á fólkið í þann mund sem kviknaði í.

„Svo kem ég keyrandi að og þá kom blossi framan úr rafmagnsbílum. Það var eins og hefði verið kveikt á gastæki. Svo fuðraði þetta upp,“ segir Sigurvaldi.

Aðalatriðið að enginn slasaðist

Róbert Daníel Jónsson náði myndum af aðstæðum á Svínvetningabraut sem fylgja fréttinni. Eins og sést á myndunum var um mikinn eld að ræða.

BlönduósRóbert Daníel Jónsson

„Þau hringdu í 112 og fengu þau ráð að við ættum að forða okkur langt í burtu því mengunin frá eldinum væri svo ógeðsleg. Við gátum ekkert gert nema horfa á bílinn brenna,“ segir Sigurvaldi.

Eigandi bílsins hafi verið í nokkru uppnámi til að byrja með en róast í framhaldinu.

„Aðalatriðið er auðvitað að fólkið sleppi. Það er hægt að bæta hitt.“

Bílinn var tveggja ára og hefur Sigurvaldi eftir eigandanum að hann hafi verið tryggður.

Óljóst hvað olli eldinum

Í framhaldinu bar slökkvilið að garði og tók til við að slökkva eldinn. Þá hafði hann borist í sinu. Slökkviliðsmönnum tókst að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu eldsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi er óljóst af hverju kviknaði í bílnum. Fólkið er búsett á Blönduósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×