Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir að á meðal þess sem ákveðið hafi verið á fundi sérsambanda ÍSÍ með almannavörnum í gær er hvernig skal meðhöndla mál leikmanna sem lenda í sóttkví.
„Einstaka leikmenn sem eru í sóttkví falla í sama flokk og meiddir leikmenn eða fjarverandi. Ef heilt lið myndi aftur á móti lenda í sóttkví þá þyrfti að endurmeta stöðuna á ný,“ segir Róbert Geir en á fundinum var ákveðið að starfsemi sambandanna myndi halda óbreytt áfram en eðlilega væri staðan endurmetin daglega.
Ef sú staða kemur upp að heilt lið færi í sóttkví þá yrði óhjákvæmilega að fresta leikjum en slík mál yrðu tækluð ef þau kæmu upp.
„Það veit enginn hvernig framhaldið verður bæði hér og erlendis. Við lifum á tímum sem eru án fordæma og ekki hægt að vísa í sambærilegar stöður. Það er því áframhaldandi vinna í þessum efnum og verður það næstu vikur.“
Möguleikinn á samkomubanni er auðvitað enn fyrir hendi og þá yrði að spila fyrir tómum húsum eða setja skorður á fjölda áhorfenda.
„Ef það verður samkomubann yrði hreyfingin að skoða það í heild sinni með ÍSÍ hvaða leiðir séu færar í þeim efnum,“ segir framkvæmdastjórinn en hefur eitthvað verið rætt hvernig tjón félaganna yrði tæklað ef slíkt bann verður sett á?
„Það er ekki hafin vinna í að skoða hvernig það yrði gert og við vitum ekki heldur hvort það sé hægt. Það er eitthvað sem tíminn yrði að leiða í ljós. Það koma upp ný verkefni nánast á hverjum degi og við erum að reyna að feta okkur áfram eins og aðrir á þessum sérstökum tímum sem við nú búum við.“