Skoðun

Auðlind í eigu þjóðar?

Arnar Snær Ágústsson skrifar

Hræðsla við að ræða kerfið?

Hart var tekist á um fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi enn eina ferðina. Skemmst er frá því að segja að skýrslubeiðni minnihlutans um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðiheimildir á Íslandi og í Namibíu vakti fáheyrða reiði og andsvör stjórnarmeirihlutans. Í raun svo mikil viðbrögð að í fyrsta skipti í sögu Alþingis kaus ráðherra gegn skýrslubeiðni minnihlutans. Það er afar sjaldgæft að þingmenn greiði atkvæði gegn skýrslubeiðnum, enda eru þær í eðli sínu upplýsinga- og aðhaldstæki minnihlutans. Hver var tilgangurinn með þessari andstöðu? Er eitthvað sem ekki má koma fram eða má bara ekki ræða um fiskveiðistjórnunarkerfið? Núverandi sjávarútvegsráðherra svaraði þingmanni Viðreisnar á dögunum í óundirbúnum fyrirspurnum. Þar benti ráðherra á að sjálfstæðismenn hefðu þegið sæti í þverpólitískri nefnd skipuð af forvera hans um gjaldtöku í sjávarútvegi. Síðan þá hefur reyndar lítið gerst. Því veltir maður fyrir sér hvers vegna sjálfstæðismenn hafa ekkert aðhafst, verandi með sjávarútvegsráðuneytið síðan 2017. Eru þeir hræddir við að ræða um gjaldtöku í sjávarútvegi?

Er kerfið gott?

Það er ekki annað en sanngjarnt að segja að almennt séð hafi fiskveiðistjórunarkerfið verið farsælt og skilað miklu inn í þjóðarbúið. En það er fjarri að segja að þetta kerfi sé gallalaust, það ýtir undir mikla samþjöppun og margar byggðir hafa verið skildar eftir í sárum vegna þess. Atburðir síðustu missera gefa líka tækifæri til að endurskoða gjaldtöku. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki virðast reiðubúin að leita á önnur mið og kaupa fisk annars staðar á hærra verði en hér heima. Eru þau að gefa í skyn að íslenski fiskurinn sé verri söluvara? Endurspeglar þetta ekki frekar þörfina á að endurskoða gjaldtöku í sjávarútvegi á Íslandi?

Hver er svo betri í að meta verðmæti sjávarafurða en sjávarútvegsfyrirtækin sjálf? Hvers vegna eru markaðslögmál ekki viðhöfð í sjávarútvegi eins og annars staðar í þjóðfélaginu? Hvers vegna ekki að leyfa fyrirtækjum i sjávarútvegi að bjóða í veiðiheimildir? Almenningur fengi þá sanngjarnt gjald af auðlindinni og sjávarútvegsfyrirtækin þyrftu ekki að kvíða því að handahófskenndar álögur stjórnmálamanna á greinina gætu keyrt þau í kaf. Núverandi kerfi virðist frekar verja sérhagsmuni heldur en almannahagsmuni þjóðarinnar. Það er jú þjóðin sem á auðlindina, ekki fyrirtæki í sjávarútvegi.

Umræðan um lýðskrum

Sjálfstæðisflokkurinn virðist skíðlogandi hræddur við opna umræðu um málaflokkinn. Fyrst hann berst gegn eðlilegu upplýsingaflæði og hrópar „lýðskrum“ við skýrslubeiðni minnihlutans. Nærtækara væri að horfa í eigin barm og athuga lýðskrumið sem felst í að sverta orðspor Mannréttindadómstóls Evrópu líkt og þau hafa keppst við að gera síðustu vikuna.

Við sem kjósendur og skattgreiðendur eigum rétt á að opinber kerfi séu skýr og gegnsæ. Gaslýsing og leikrit í sölum Alþingis er engum til framdráttar.

Höfundur er gjaldkeri Uppreisnar - Ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×