Innlent

Konan sem slasaðist á Sandgerðisvegi úr lífshættu

Kjartan Kjartansson skrifar
Áreksturinn varð skammt frá hringtorgi við Keflavíkurflugvöll laugardaginn 18. janúar.
Áreksturinn varð skammt frá hringtorgi við Keflavíkurflugvöll laugardaginn 18. janúar. Grafík/Hafsteinn

Rannsókn á árekstri tveggja bifreiða á Sandgerðisvegi þegar lögreglumenn veitti öðrum þeirra eftirför miðar vel, að sögn lögreglu. Kona á fimmtugsaldri sem var farþegi í öðrum bílnum er sögð mikið slösuð en ekki lengur í lífshættu.

Þrír voru fluttir á slysadeild eftir áreksturinn á Sandgerðisvegi 18. janúar, ökumaður bílsins sem lögreglan veitti eftirför og tvennt sem var í bílnum sem hann ók á. Konan var farþegi í bílnum sem varð fyrir þeim sem var veitt eftirför. Loka þurfti veginum um tíma vegna slyssins.

Ökumaðurinn sem lögreglan elti var á stolnum bíl og er sagður hafa ekið á miklum hraða. Lögreglan á Suðurnesjum hefur sagt að hann sé grunaður um ofsaakstur undir áhrifum fíkniefna. Eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hefur eftirförina til rannsóknar en henni ber að rannsaka mál þar sem fólk lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni við störf lögreglu. Lögreglan sagði að lögreglumenn sem eltu ökumanninn hafi dregið verulega úr hraða skömmu fyrir áreksturinn.

Ók í gegnum hringtorgið

Stefán Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður rannsóknadeildar lögreglunnar á Suðurnesjum, segir við Vísi að rannsókninni á árekstrinum miði vel. Maðurinn sitji í gæsluvarðhaldi vegna endurtekinna brota. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum renni út á föstudag en að öllum líkindum verði farið fram á framlengingu á honum. Stefnt sé að því að halda honum í varðhaldi fram að dómi í máli hans.

Ökumaðurinn sem situr nú í varðhaldi fór í gegnum hringtorgið nærri Keflavíkurflugvelli og inn á Sandgerðisveg. Þegar hann hafði ekið rúman hálfan kílómetra á Sandgerðisvegi, við slæm akstursskilyrði, fór hann yfir á rangan vegarhelming. Við það rakst hann á bifreiðina sem konan var farþegi í.

Konan er mikið slösuð en ekki lengur í lífshættu. Stefán segir að henni hafi verið haldið sofandi lengi en hún hafi nú verið vakin. Báðir bílarnir sem lentu í árekstrinum segir hann illa farna, ef ekki ónýta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×