Breskur maður sem talið er að hafi smitað allt að ellefu samlanda sína af Covid19-veirunni hefur verið nafngreindur í breskum fjölmiðlum. Maðurinn heitir Steve Walsh, er 53 ára gamall og starfar í viðskiptum auk þess að vera skátaforingi.
Walsh smitaðist af veirunni í Singapúr þar sem hann var staddur á viðskiptaráðstefnu. Áður en hann hélt heim til Bretlands fór hann á skíðahótel í frönsku Ölpunum. Er talið að Walsh hafi smitað ellefu aðra Breta af veirunni en þeir dvöldu á sama hóteli og hann í Frakklandi.
Fimm þeirra eru nú í Bretlandi, fimm eru í Frakklandi og einn á Spáni en sjálfur hefur Walsh verið í sóttkví á spítala í London eftir að hann greindist með veiruna þann 6. febrúar síðastliðinn. Þá var hann kominn heim til Bretlands.
Alls hafa átta manns greinst með Covid19-veiruna í Bretlandi og eru öll tilfellin fyrir utan tvö tengd við Walsh. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann þakkaði starfsfólki breska heilbrigðiskerfisins (NHS) fyrir umönnunina.
Hugur Walsh hjá öðrum sem hafa smitast
„Mig langar til að þakka NHS fyrir hjálpina og umönnunina. Þótt ég hafi náð fullum bata þá er hugur minn hjá öðrum sem smitast hafa af veirunni.
Um leið og ég vissi að ég hefði verið í kringum manneskju sem var smituð af veirunni hafði ég samband við heimilislækninn minn, spítalann og bresku lýðheilsustofnunina,“ segir í yfirlýsingu Walsh.
Hann hafði engin einkenni veirunnar en fór engu að síður í sóttkví heima hjá sér.
„Þegar smitið var staðfest var ég sendur í einangrun á spítalann, þar sem ég er enn. Sem fyrirbyggjandi aðgerð var fjölskyldan mín einnig beðin um að einangra sig.
Ég vil einnig þakka vinum, fjölskyldu og samstarfsfélögum fyrir stuðninginn undanfarnar vikur og bið fjölmiðla um að virða einkalíf okkar.“
Yfir 1100 manns látið lífið vegna veirunnar
Kínverjar greindu frá því í morgun að fjöldi nýsmitaðra af völdum kórónuveirunnar sem nú hefur fengið nafnið Covid19 hafi dregist saman í gær, annan daginn í röð. Alls hafa tæplega 45 þúsund manns greinst með veiruna.
97 létust af völdum veirunnar í gær sem þýðir að rúmlega 1100 manns hafa nú dáið vegna veirunnar sem rekja má til kínversku stórborgarinnar Wuhan.
Faraldurinn er enn sem komið er langalvarlegastur í Kína. Utan Kína hafa einungis tveir látið lífið vegna veirunnar, einn í Hong Kong og annar á Filipseyjum.