Erlent

Ríkisstjórn Rússlands segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Pútín og Dimitry Medvedev.
Vladimir Pútín og Dimitry Medvedev. AP/Alexei Nikolsky

Dimitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, hefur beðist lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Vladimir Pútín, forseti, hefur þó skipað ríkisstjórn Medvedev að sinna skyldum sínum áfram, þar til ný ríkisstjórn hefur verið skipuð. Með þessu segist Medvedev vilja gefa Pútín það svigrúm sem hann þarf til að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnarskrá Rússlands.

Pútín hefur lagt til að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá Rússlands, sem myndu færa völd forsetaembættisins til þingsins og annarra stofnanna.

Meðal breytinga sem Pútín lagði til er að takmarka forseta framtíðarinnar við tvö kjörtímabil og að þingið skipi forsætisráðherra og ríkisstjórn. Vert er að taka fram að Pútín er nú á fjórða kjörtímabili sínu í embætti forseta.

Forsetinn kallaði einnig eftir þjóðaratkvæðagreiðslu til að staðfesta breytingarnar.

Pútín hefur í raun stýrt Rússlandi frá 1999. Hann varð forsætisráðherra árið 2008, vegna takmarkana á fjölda kjörtímabila sem forseti mátti sitja, og Medvedev varð forseti. Pútín tók svo aftur við embætti forseta 2012 og lengdi hann kjörtímabilið úr fjórum í sex ár.

Núverandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024 og hefur hann ekki gefið út hvað hann ætlar sér að gera.

Greinendur telja að með þessum tillögum sínum sé Pútín þegar byrjaður að undirbúa það að hann taki við embætti forsætisráðherra eftir 2024 og haldi þannig áfram að stjórna Rússlandi. Hann gæti sömuleiðis tekið við formennsku ríkisráðsins, sem hann vill einnig gera valdameira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×