Erlent

Stjórnar­skrár­breytingar gætu leitt til fram­lengingar valda­tíðar Pútín til 2036

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexei Nikolsky

Rússneska þingið hefur samþykkt stjórnarskrárbreytingar sem gætu leitt til að Vladimír Pútín forseti yrði við völd allt til ársins 2036

Stjórnlagadómstóll landsins á enn eftir að gefa grænt ljós en fari það svo að dómstóllinn leggi blessun sína yfir málið er gert er ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um málið 22. apríl næstkomandi.

Þingið samþykkti sérstaka breytingatillögu þingkonunnar og geimfarans Valentinu Teresjkova í gær um að ekki bæri að taka tillit til fyrri kosninga eftir að stjórnarskrárbreytingarnar tækju gildi.

Takmarkanir á valdatíð forseta væru þá áfram tvö kjörtímabil, en myndu ekki eiga við hinn 67 ára Pútín eftir gildistöku. Pútín gæti því setið tvö sex ára kjörtímabil til viðbótar eftir að núverandi kjörtímabil rynni sitt skeið á enda.

Pútín hefur gegnt embætti forseta frá síðasta degi ársins 1999. Hann gegndi þó embætti forsætisráðherra á árunum 2008 til 2012.

383 þingmenn greiddu atkvæði með breytingunum, 43 sátu hjá og 24 voru ekki viðstaddir. Enginn greiddi atkvæði gegn breytingunum.


Tengdar fréttir

Flokkur Pútín vill breyta lögum svo hann geti setið áfram

Ákvæðum rússnesku stjórnarskrárinnar gæti verið breytt á næstunni til að gera Vladímír Pútín kleift að sitja áfram sem forseti. Hann hefur þegar verið við völd í tuttugu ár, lengur en nokkur annar leiðtogi Rússlands frá því að harðstjórinn Jósef Stalín var og hét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×