Erlent

Banna át á villtum dýrum í Wuhan

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skjaldbaka í neti á matarmarkaði í Guangzhou í Kína.
Skjaldbaka í neti á matarmarkaði í Guangzhou í Kína. Vísir/EPA

Yfirvöld í kínversku borginni Wuhan, hvaðan kórónuveiran sem valdið getur Covid-19 er talin eiga uppruna sinn, hafa nú tekið ákvörðun um að banna neyslu á kjöti villtra dýra í borginni.

Þetta kemur fram á vef fréttastofu CBS. Þar segir einnig að bændum verði boðnir peningar fyrir að hætta að rækta framandi dýr til slátrunar. Margir sérfræðingar telja að rekja megi upphaf kórónuveirunnar til „blautmarkaða“ í borginni, þar sem villt dýr voru seld, lifandi eða dauð.

Þá hafa yfirvöld í borginni lagt bann við veiðum villtra dýra, þó með undantekningum. Stefnt er að því að Wuhan verði þannig „griðastaður villts dýralífs,“ og að veiðar verði aðeins leyfðar í vísindalegum tilgangi, til heilbrigðisrannsókna, til að stjórna stofnstærðum villtra dýra eða undir öðrum sérstökum kringumstæðum.

Kínversk stjórnvöld höfðu áður bannað sölu á villtum, framandi dýrum til þess að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×