Viðskipti erlent

EasyJet hefur sig til flugs á ný

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Félagið áætlar að flognar verði tæplega 190 ferðir á viku að meðaltali.
Félagið áætlar að flognar verði tæplega 190 ferðir á viku að meðaltali. Vísir/EPA

Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet mun hefja farþegaflug á nýjan leik þann 15. júní næstkomandi. Þetta tilkynntu forsvarsmenn félagsins í dag. Félagið hefur ekki flogið síðan í lok mars. Ástæðan er kórónuveirufaraldurinn sem herjað hefur á heimsbyggðina síðustu mánuði.

Þær flugleiðir sem aftur verða flognar í júní eru að mestu innan Bretlands og Frakklands. Eina millilandaflugið frá Bretlandi sem hefst á þessum tíma verður á milli Gatwick-flugvallar í London og Nice í Frakklandi.

Farþegum og áhöfnum véla félagsins verður gert að vera með grímur til þess að draga úr hættunni á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Johan Lundgren, framkvæmdastjóra EasyJet, að um sé að ræða „lítil og varlega skipulögð skref“ í því að koma rekstri félagsins aftur af stað. Eftir að flug hefjist að nýju verði flognar að meðaltali tæplega 190 ferðir á viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×