Innlent

Anna Margrét er enn sárlasin á tíunda degi með Covid-19

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anna Margrét Jónsdóttir vann alla mögulega íslenska titla í fegurð á sínum tíma, var valin Stjarna Hollywood, Fulltrúi ungu kynslóðarinnar, Ungfrú Reykjavík og Fegurðardrottning Íslands árið 1987.
Anna Margrét Jónsdóttir vann alla mögulega íslenska titla í fegurð á sínum tíma, var valin Stjarna Hollywood, Fulltrúi ungu kynslóðarinnar, Ungfrú Reykjavík og Fegurðardrottning Íslands árið 1987.

Anna Margrét Jónsdóttir, flugfreyja, ferðamálafrömuður og fyrrverandi fegurðardrottning, er ein þeirra níutíu Íslendinga sem greinst hefur með kórónuveiruna, sem veldur Covid-19-sjúkdómnum. Þessu greinir Anna Margrét frá í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld og lýsir veikindunum jafnframt nánar í samtali við Fréttablaðið.

Anna Margrét telur að hún hafi verið um það bil sú fimmtánda sem smitaðist af veirunni hér á landi. Þá ber hún veikindunum af völdum veirunnar afar illa söguna; hún lýsir því að hún sé nú á degi tíu í veikindum og enn þá lasin. Raunar hafi hún aldrei fengið svona svæsna flensu. Það sé þó á dagskrá að hressast sem allra fyrst.

Eiginmaðurinn „létt sýktur“ 

Anna Margrét vildi ekk tjá sig frekar um málið þegar Vísir náði tali af henni í kvöld en hún lýsir veikindunum og aðdraganda þeirra frekar í samtali við Fréttablaðið. Hún segist hafa verið í Selva á Ítalíu á skíðum, þar sem greinilega hafi verið kjöraðstæður fyrir veiruna. Hún og eiginmaður hennar, Árni Harðarson aðstoðarforstjóri Alvogen, hafi verið á ferðalagi með vinapari sínu en varið tíma með fleiri Íslendingum. Sjö af tíu í hópnum hafi að endingu smitast.

„Þetta byrjaði sem væg flensa, hálsbólga og kvef. Ég hætti síðan að finna bragð á fimmta degi - ekki gott. Flensan hefur svo frekar versnað - dagur níu var verstur. Ég stend í þeirri trú að þetta sé að batna nú í kvöld, á degi 10, maður verður bara að halda það,“ segir Anna Margrét í samtali við Fréttablaðið.

Anna Margrét, eiginmaður hennar og sonur hafa jafnframt verið í einangrun heima við undanfarna daga. Hún segir þó í samtali við Fréttablaðið að eiginmaðurinn sé aðeins „létt sýktur“ og sonurinn raunar alls ekki. Sá síðastnefndi sé þó að „deyja úr leiðindum“ í einangruninni heima.

Alls hafa nú níutíu kórónuveirusmit verið staðfest á Íslandi. Langflestir sem hafa greinst með veiruna hér á landi hafa verið á skíðum í Ölpunum, sem nú hafa allir verið skilgreindir sem hættusvæði. Einn liggur verulega veikur inni á Landspítalanum vegna veirunnar hér á landi. Í dag skilgreindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) útbreiðslu Covid-19-sjúkdómsins sem heimsfaraldur.


Tengdar fréttir

Bæði sýnin á Akureyri reyndust neikvæð

Sýni úr tveimur einstaklingum sem settir voru í einangrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna gruns um kórónuveirusmit reyndust neikvæð fyrir COVID-19 sjúkdómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×