Körfubolti

Allir leikmenn sem hafa spilað við Utah Jazz síðustu tíu daga þurfa að fara í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudy Gobert, miðherji Utah Jazz, er með kórónuveiruna samkvæmt fréttum bandarískra miðla.
Rudy Gobert, miðherji Utah Jazz, er með kórónuveiruna samkvæmt fréttum bandarískra miðla. Getty/Alex Goodlett

Leikur Utah Jazz og Oklahoma City Thunder í nótt fór aldrei fram og eftir að honum var frestað var ákveðið að fresta öllum leikjum í NBA-deildinni í körfubolta vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Bandarískir fjölmiðlar sögðu frá því í kjölfarið að Rudy Gobert, leikmaður Utah Jazz, hafði greinst með kórónuveiruna og það hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum NBA deildarinnar.

Stjórn NBA deildarinnar mun funda um framhaldið í dag en eins og er þá eru engir leikir fyrirhugaðir á næstu dögum og vikum.

Leikmenn í NBA deildinni mega halda áfram að æfa en margir þeirra þurfa að æfa í einrúmi sökum þess að þeir hafa umgengist Utah Jazz liðið að undanförnu.

Rudy Gobert flaug með Utah Jazz liðinu til Oklahoma City en kom aldrei í höllina eftir að hann veiktist. Leikmenn Oklahoma City Thunder eru því ekki meðal þeirra sem þurfa að vera í einangrun.

Leikmenn liðanna sem hafa aftur á móti mætt Utah Jazz síðustu daga þurfa allir að fara í sóttkví en það eru leikmenn Cleveland Cavaliers, New York Knicks, Boston Celtics, Detroit Pistons og Toronto Raptors.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×