Innlent

Á­ætlanir um sam­komu­bann kynntar fljót­lega

Eiður Þór Árnason skrifar

Víða hafa borist fregnir af því síðustu daga að stjórnvöld í Evrópu grípi til þess ráðs að setja á samkomutakmarkanir í tilraun til þess að hamla frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.

Mikil umræða hefur sprottið um slíkt úrræði hér á landi og má reikna með því að áætlanir þess efnis verði kynntar á næstunni ef marka má orð Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá Embætti ríkislögreglustjóra.

„Við höfum sagt það í svolítinn tíma að samkomubann og takmarkanir á mannsöfnuðum með einum eða öðrum hætti sé öflugt tól. Við þurfum að beita því á réttum tíma, við erum búin að vera að smíða áætlanir, þær eru langt komnar og verða kynntar fljótlega.“

Snýst um að verja viðkvæma hópa

Víðir minnir á að öll vinna almannavarna og heilbrigðisyfirvalda miði að því að vernda einstaklinga sem eru í veikari á hópum, til að mynda eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Þetta snýst um að verja þá og það sem við verðum að standa mestan vörð um til þess að geta veitt þeim þjónustu eru auðvitað gjörgæslur og Landspítalinn sem að við þurfum að verja sem mest. Þess vegna erum við að reyna að draga þennan faraldur sem mest á langinn til þess að þegar toppnum er náð þá verðum enn þá með getu til að veita almennilega heilbrigðisþjónustu.“

Telur að röng tímasetning myndi gera heilbrigðiskerfinu mjög erfitt fyrir

Sitt sýnist hverjum um fyrirhugað samkomubann og hafa sumir viljað sjá það lagt á sem fyrst. Víðir ítrekar að það sé mikilvægt að gripið sé til slíks ráðs á hárréttum tíma.

„Ef þú setur það of snemma og stoppar algjörlega hugsanlega útbreiðslu faraldursins þá höldum við því í hvað fjórar - átta vikur, eða hvað við þurfum að gera, og svo þegar við höldum að við séum bara orðin í góðum málum og tökum það af, þá fáum við einhverja toppa sem við ráðum ekki við.“

Víðir segir að vísindamenn séu ekki alveg sammála um það hvort að slík aðgerð skili alltaf skotheldum árangri.

„Þetta fer að þyngjast, það er alveg ljóst. Þeim fjölgar tilfellunum hjá okkur, við erum tilbúin og við munum beita þessu þegar best lætur.“

Fylgjast vel með aðgerðum í Kína og Evrópu

Hann bætir við að vissulega séu margar óvissuspurningar þegar kemur að viðbrögðum við kórónuveirunni.

Það sem gerir þetta erfitt er að við erum að fást við fyrirbæri sem er ekkert mjög mikil þekking á.“

Ekki sé um að ræða veiru sem hafi verið rannsökuð áratugum saman líkt og er með hefðbundnari inflúensu.

„Þarna erum við með þessa veiru sem er tiltölulega ný. Þó við höfum einhverja reynslu frá 2003, þá erum við fyrst og fremst núna að rýna allt sem Kínverjarnir gerðu. Þeir eru að miðla til okkar mikið af upplýsingum, Sóttvarnarstofnun Evrópu er að miðla til okkar gögnum og við erum að beita þeim aðgerðum sem virðast vera að virka best.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×