Leitin að Axel Jósefssyni Zarioh, skipverja sem talinn er hafa fallið fyrir borð fiskiskips í Vopnafirði á mánudag hélt áfram klukkan um 9:30 í morgun. Síðast var leitað á föstudag, en ekki var hægt að leita í gær sökum slæmra veðurskilyrða.
Um 90 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni og koma frá björgunarsveitum allt frá Djúpavogi til Akureyrar. Bæði verður leitað á sjó og landi. Fjörur verða gengnar og einnig verður notast við flugdróna við leitina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.
Ef veðurspár ganga eftir má búast við að leitarskilyrði versni eftir því sem líður á daginn. Leit dagsins mun halda áfram eins lengi og veður leyfir, en hún verður skipulögð út frá aðstæðum hverju sinni.