Lögreglan segist hafa þurft að aðstoða tvo erlenda ferðamenn eftir rafmagnshlaupahjólaslys í gærkvöld. Þar á maður að hafa ekið hjóli sínu um miðborg Reykjavíkur á „miklum hraða“ áður en hann hafnaði á ferðamönnunum tveimur við Lækjartorg.
Við það er annar þeirra sagður hafa fallið aftur fyrir sig og lent með hnakkann á stéttinni fyrir neðan sig. Sjúkrabíll var kallaður til vegna áverka ferðamannsins en þegar sjúkraflutningamenn komu á Lækjartorg töldu þeir ekki ástæðu til að flytja hinn vankaða á bráðadeild. Ekki fylgir þó sögunni hvort einhver önnur eftirmál hafi orðið af glæfraakstri rafmagnshlaupahjólamannsins.
Auk þessa óhapps segist lögreglan hafa handtekið einstakling upp úr miðnætti sem grunaður er um líkamsárás, innbrotsþjóf í Hamraborg í Kópavogi og tvo ökumenn sem taldir eru hafa ekið undir áhrifum.