Viðskipti innlent

Jarð­hita­ráð­stefnunni í Hörpu frestað fram á næsta ár

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðstefnan átti að fara fram í Hörpu dagana 27. apríl til 1. maí.
Ráðstefnan átti að fara fram í Hörpu dagana 27. apríl til 1. maí. Vísir/Vilhelm

Undirbúningsnefnd jarðhitaráðstefnunnar World Geothermal Congress 2020 (WGC 2020), hefur ákveðið í ljósi aðstæðna að fresta ráðstefunni um rúmlega eitt ár, fram til 21.-26. maí 2021.

Ráðstefnan átti að fara fram í Hörpu dagana 27. apríl til 1. maí næstkomandi og segir á heimasíðu WGC að búist væri við um þrjú þúsund gestum.

Í tilkynningu frá Steinari Erni Jónssyni hjá GEORG Geothermal Research Cluster segir að WGC sé haldið á fimm ára fresti í samstarfi við Alþjóða jarðhitasambandið (International Geothermal Association).

Ráðstefnan á Íslandi hefði verið ein sú umfangsmesta hingað til með þátttakendum frá um 100 löndum.

Haft er eftir Bjarna Pálssyni, formanni undirbúningsnefndar WGC 2020 að í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem skapast hafi vegna útbreiðslu kórónaveirunnar hafi sú ákvörðun verið tekin að fresta WGC 2020 fram til maí 2021.

„Þetta var þungbær ákvörðun en heilsa og ítrasta öryggi allra viðeigandi verður að hafa í forgangi. Með frestun fram á næsta ár tryggjum við að öll sú vinna sem hefur farið í að skipuleggja þessa uppskeruhátíð jarðhitaiðnaðarins fari ekki forgörðum,“ er haft eftir Bjarna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×