Kínverska konan sem fór að finna fyrir flensueinkennum við lendingu á Kastrup-flugvelli í morgun reyndist ekki vera smituð af Wuhan-kórónaveirunni. Þetta hafa dönsk heilbrigðisyfirvöld staðfest en konan var sett í einangrun.
Konan upplýsti flugvallarstarfsmenn sjálf um þau einkenni sem hún fór að finna fyrir við lendingu í morgun. Í kjölfarið var einni flugstöðvarbyggingu á Kastrup-flugvelli lokað og konan flutt á sjúkrahús í Hvidovre.
Sjá einnig: Hluta Kastrup-flugvallar lokað vegna veikrar konu
Spítalinn er einn tveggja spítala í Danmörku sem hefur burði til þess að skoða sjúklinga sem grunaðir eru um að vera smitaðir af veirunni að því er fram kemur á vef DR. Þar var hún sett í einangrun við komuna og skoðuð af læknum.
Konan kom til Kaupmannahafnar snemma í morgun frá Kína með millilendingu í Helskinki í Finnlandi. Hún kveðst hafa verið með grímu fyrir vitum sér frá því að hún lenti á flugvellinum. Eftir að flugstöðvarbyggingunni var lokað var hún þrifin hátt og lágt en að sögn yfirvalda þurfa gestir flugstöðvarinnar ekki að hafa neinar áhyggjur. Það sé búið að ganga úr skugga um að hún hafi ekki verið smituð og því ekkert sem bendi til þess að aðrir gestir hafi getað smitast hafi þeir farið í gegnum bygginguna á sama tíma.
Þá hefur önnur manneskja verið lögð inn á spítalann í Hvidovre vegna gruns um smit. Viðkomandi er ekki sagður tengjast farþeganum á Kastrup-flugvelli á neinn hátt heldur sé algjörlega um aðskilin tilfelli að ræða.
Konan á Kastrup reyndist ekki vera með Wuhan-veiruna
Tengdar fréttir
Wuhan-veiran: Tíu manns skoðaðir en enginn smitaður
Enn hefur enginn einstaklingur greinst með Wuhan-veiruna hér á landi en tíu einstaklingar hafa verið rannsakaðir með tilliti til veirunnar. Enginn þeirra var smitaður.
Hluta Kastrup-flugvallar lokað vegna veikrar konu
Einni flugstöðvarbyggingu Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn hefur verið lokað vegna veikrar konu, sem hóf að finna fyrir flensueinkennum við lendingu í morgun.
Fjörutíu smitaðir til viðbótar um borð í Prinsessunni
Alls eru nú 636 látnir af völdum Wuhan-kórónaveirunnar og staðfest tilfelli eru orðin rúmlega 31 þúsund.