Viðskipti innlent

Leggja til tvo er­lenda sér­fræðinga í stað Heið­rúnar og Ómars

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bæði Thomas og Jonsson hafa víðtæka reynslu á sviði alþjóðlegs flugrekstrar.
Bæði Thomas og Jonsson hafa víðtæka reynslu á sviði alþjóðlegs flugrekstrar. Vísir/vilhelm

Valnefnd Icelandair leggur til að tveir erlendir sérfræðingar í flugrekstri komi nýir inn í stjórn Icelandair Group á næsta aðalfundi. Sérfræðingarnir myndu taka sæti í stjórninni í stað Heiðrúnar Jónsdóttur og Ómars Benediktssonar.

Skýrsla nefndarinnar var birt í morgun. Þar er lagt til að John F. Thomas, ráðgjafi hjá McKinsey & Co. Og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Virgin Australia Airlines, og Nina Jonsson, ráðgafi hjá Plane View Partners og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Air France-KLM, verði kjörin í stjórn Icelandair Group.

Bæði Thomas og Jonsson hafa víðtæka reynslu á sviði alþjóðlegs flugrekstrar. Í skýrslunni segir að hluthafar og stjórnarmeðlimir hafi bent á að fólk með slíka reynslu myndi styrkja stjórnina.

Þá er jafnframt lagt til að Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður, Guðmundur Hafsteinsson og Svafa Grönfeldt sitji áfram í stjórninni.

Aðalfundur Icelandair Group verður haldinn 6. mars næstkomandi. Kosið verður í stjórnina á fundinum. Greint var frá því í gær að tap Icelandair Group á síðasta ári hafi numið 7,1 milljarði króna (57,8 milljónum dala), samanborið við 6,8 milljarða króna árið 2018.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×