Viðskipti erlent

Sylvi Listhaug úthlutar 69 leyfum til olíuleitar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sylvi Listhaug, olíumálaráðherra Noregs, við opnun Johan Sverdrup-svæðisins í Norðursjó fyrr í mánuðinum.
Sylvi Listhaug, olíumálaráðherra Noregs, við opnun Johan Sverdrup-svæðisins í Norðursjó fyrr í mánuðinum. Equinor/Arne Reidar Mortensen.

Olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Sylvi Listhaug, tilkynnti í vikunni um úthlutun 69 nýrra sérleyfa til leitar og vinnslu olíu í lögsögu Noregs. 

„Ég er stolt af því að geta boðið 69 ný vinnsluleyfi í þessari umferð í ár. Mikill áhugi fyrirtækjanna á að fá aðgang að nýjum leitarsvæðum sýnir að atvinnugreinin hefur mikla trú á framtíðarverðmætasköpun á norska landgrunninu,“ segir Listhaug í fréttatilkynningu frá olíu- og orkumálaráðuneytinu. 

Nýju sérleyfin eru til 28 olíufélaga. Þau skiptast þannig milli hafsvæða að 33 eru í Norðursjó, 23 í Noregshafi og 13 í Barentshafi, en hér má sjá þau nánar á kortum.

Vinnslupallurinn Golíat vinnur olíu á nyrsta olíusvæði Noregs, sem er í Barentshafi norðan heimskautsbaugs.

„Rannsóknir sem núna hefjast á þessum svæðum munu vonandi leiða til nýrra uppgötvana. Það er mikilvægt til að tryggja arðbær störf, verðmætasköpun og tekjur ríkisins í framtíðinni af stærstu atvinnugrein Noregs,“ segir olíumálaráðherrann. 

Hún hélt áfram að ögra andstæðingum olíuvinnslu á ráðstefnu olíuiðnaðarins í Sandefjord síðastliðinn þriðjudag þar sem hún kynnti nýju sérleyfin. 

„Dómsdagsspár umhverfissamtaka og sumra stjórnmálaflokka um skyndidauða olíuiðnaðarins eru ýktar,“ sagði hún og endurtók fyrri röksemdarfærslu um að betra væri fyrir umhverfið að Norðmenn framleiddu olíu með margfalt minni losun en aðrir. 

„Svo lengi sem heimurinn þarfnast olíu og gass, þá á Noregur að taka þátt í framleiðslunni,“ sagði Listhaug.

Frá Johan Sverdrup-svæðinu. Smíði hinna gríðarstóru vinnslupalla hófst árið 2015 en aðeins fyrri áfangi er kominn upp.Equinor/Espen Rønnevik og Øyvind Gravås.

Fyrstu leitarleyfin á norska landgrunninu voru gefin út árið 1965. Upphaf olíuævintýrisins hefur gjarnan verið miðað við jólin 1969. Á Þorláksmessu það ár tilkynnti Phillips-olíufélagið norskum stjórnvöldum um að það hefði fundið arðbæra olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó. 

Síðan hefur ekkert lát verið á ævintýrinu. Þannig var eitt verðmætasta olíuvinnslusvæði í sögu Noregs formlega opnað fyrr í þessum mánuði, eins og sjá má hér:


Tengdar fréttir

Fimmtíu ár frá upphafi norska olíuævintýrisins

Það var á Þorláksmessu árið 1969 sem ráðamenn Phillips-olíufélagsins hringdu í norska iðnaðarráðuneytið og tilkynntu um að þeir hefðu fundið olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×