Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Borgarleikhússins verður dagskrá þar um helgina óbreytt þrátt fyrir samkomubann sem stjórnvöld hafa lýst yfir. Það samkomubann tekur ekki gildi fyrr en á mánudaginn og því verður Níu líf, söngleikurinn um Bubba Morthens, frumsýnt í kvöld eins og til stóð. Spenntir leikhús- og Bubbaaðdáendur geta því eftir sem áður látið sig hlakka til kvöldsins.
Hitt stóra leikhúsið hefur hins vegar skellt í lás, öllum sýningum hefur verið frestað þegar í stað.
„Þar sem samkomubann hefur verið sett á í landinu þarf Þjóðleikhúsið, eins og aðrar sviðslistastofnanir, að fresta sýningum um óákveðinn tíma. Helstu sviðslistastofnanir þjóðarinnar, þar á meðal Þjóðleikhúsið, eru í samstarfi um viðbrögð vegna Covid-19 veirunnar. Þó samkomubannið bresti ekki á með formlegum hætti fyrr en á sunnudag, þá hefur leikhúsið ákveðið að fella niður sýningar helgarinnar þegar í stað í varúðarskyni,“ segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.