Innlent

Gera ráð fyrir 16,9% atvinnuleysi í apríl

Andri Eysteinsson skrifar
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir áframhaldandi aukningu atvinnuleysis.
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir áframhaldandi aukningu atvinnuleysis. Vísir/Hanna

Atvinnuleysi á Íslandi fór vaxandi framan af marsmánuði og mældist 9,2% hafði atvinnuleysi því aukist úr 5,0% í febrúar. Gera má ráð fyrir því vöxturinn haldi áfram í apríl mánuði. Þetta kemur fram í yfirliti Vinnumálastofnunar yfir vinnumarkaðinn á Íslandi.

Atvinnumarkaðurinn gjörbreyttist með þeim takmörkunum sem settar hafa verið á íslenskt samfélag vegna faraldurs kórónuveirunnar hér á landi. Fyrsta tilfellið greindist í lok febrúar og með tímanum breiddist veiran út um land allt með miklum áhrifum.

Ferðaþjónustan og flugsamgöngur hafa einkum farið illa út úr faraldrinum en ferðalög til og frá landinu hafa nær alveg lagst af. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar nýttu 5.200 fyrirtæki úrræði ríkisstjórnarinnar um minnkað starfshlutfall fyrir 24.400 einstaklinga í marsmánuði.

Atvinnuleysi fór í 5,7% vegna almennra umsókna um atvinnuleysistryggingar og um 3,5% að auki vegna minnkaðs starfshlutfalls alls 9,2%.

Telur Vinnumálastofnun að atvinnuleysi muni aukast mjög í apríl „þegar umsóknir um minnkað starfshlutfall koma fram af fullum þunga til viðbótar við allmikla aukningu almennra umsókna um atvinnuleysisbætur. Að auki er gert ráð fyrir að afskráningar verði í lágmarki í aprílmánuði sökum hins erfiða ástands á vinnumarkaði. Vinnumálastofnun gerir því ráð fyrir að atvinnuleysi muni vaxa í um 16,9% í aprílmánuði.“

Mest er atvinnuleysi á Suðurnesjum eða 14,1% minnst á Norðurlandi vestra 4,3%. Í Mýrdalshreppi mælist atvinnuleysi 21% en í Skútustaðahreppi 15%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×