Fjórir leikir fóru fram í 21. og næstsíðustu umferð Domino's deildar karla í gær. Guðjón Guðmundsson fór yfir leikina.
Þrátt fyrir að vera án Bandaríkjamannsins Flenards Whitfields veittu Haukar toppliði Stjörnunnar mikla keppni í Ásgarði. Það dugði þó ekki til og Stjörnumenn lönduðu sigri, 94-83. Stjarnan er aðeins einum sigri frá því að verða deildarmeistari annað árið í röð.
KR vann sinn fjórða leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Val, 90-81, í Origo-höllinni. KR-ingar eru í 4. sæti deildarinnar en Valsmenn í því tíunda.
Tindastóll hélt 3. sætinu með öruggum sigri á ÍR, 99-76, á Sauðárkróki. Þetta var annar sigur Stólanna í röð.
Þá rúllaði Njarðvík yfir Fjölni í Ljónagryfjunni, 117-83. Fallnir Fjölnismenn léku án Bandaríkjamannsins Victors Moses og munaði um minna.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.