Innlent

Áhættugreining Landspítalans komin í hendur ráðherra

Birgir Olgeirsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræðir málin við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræðir málin við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra hefur fengið áhættugreiningu Landspítalans í hendurnar. Þá á verkefnahópur um veiruskimanir á landamærunum að skila fyrstu niðurstöðum í dag.

Stjórnvöld kynntu í mánuðinum áætlun um að stefna að opnun landsins fyrir ferðamönnum eigi síðar en 15. júní og að sú tilraun standi yfir í tvær vikur. Árangur þess mun síðan ákvarða framhaldið. Margt þarf að ganga upp svo það geti orðið. 

Áhættugreining Landspítalans, hvort hann þoli yfir höfuð aukið álag sem gæti fylgt ferðamönnum ef þeir bera smit til landsins, lá ekki fyrir þegar stjórnvöld kynntu þessa stefnu sína. Þá var öll útfærsla á hvernig á að skima fyrir kórónuveirunni á landamærunum óútfærð.

Til að mynda liggur ekki fyrir hve mikill kostnaðurinn á að vera á hvert próf á að vera. Í skipunarbréfi heilbrigðisráðherra kom fram að kostnaðurinn við hvert próf mætti ekki vera hærri en 50 þúsund krónur.

Verkefnahópurinn þarf einnig að greina hvaða kröfur þarf að gera til vottorða frá öðrum löndum sem eiga að sýna fram á að sá farþegi sem framvísar þeim hafi myndað mótefni fyrir kórónuveirunni.

Þegar ráðherra hefur fengið bæði áhættugreininguna og fyrstu tillögur verkefnahópsins mun hann setjast yfir það með sóttvarnalækni og næstu skref ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×