Forsætisráðherra segir engan treysta sér til að spá fyrir um flugumferð til Íslands eftir þvi sem líður fram á sumarið. Það sé hins vegar jákvætt að Þýskaland hafi ákveðið að opna fyrir flug til landsins.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra bíður nú tillagna frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um hvernig staðið skuli að móttöku farþega á Keflavíkurflugvelli eftir að landamærin verða opnuð hinn 15. júní. Starfshópur skilaði ráðherra skýrslu um málið í gær þar sem mælt er með ýmsum ráðstöfunum varðandi upplýsingagjöf til farþega, skilyrði fyrir komu þeirra til landsins, heimildir til lögreglu til að bregðast við fari farþegar ekki eftir tilmælum og svo framvegis. Sóttvarnarlæknir muni skila tillögum sínum til ráðherra um eða fyrir helgi og í framhaldinu birtir ráðherra ákvörðun sína.

Stjórnvöld munu greiða kostnað við skimun farþega fyrstu tvær vikurnar eftir að landamærin verða opnuð hinn 15. júní. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir óvissuna í þessum málum enn mikla.
„Eins og staðan er núna eru þetta fimm hundruð sýni á dag. Það er gert ráð fyrir að þau afköst geti farið upp í þúsund frá og með miðjum júlí. Það er líka rætt að hugsanlega þurfi að leita til annarra aðila um eitthvert samstarf um þessa skimun,“ segir Katrín.
Þar er átt við Íslenska erfðagreiningu sem hefur frá því faraldurinn kom upp skimað tugi þúsunda manna fyrir kórónuveirunni. Forsætisráðherra minnir á að nú séu þrjár vikur þar til opna eigi landamærin og margt geti breyst á þeim tíma. Í gær hafi þær fréttir til að mynda borist að Þjóðverjar ætli að heimila flug til Íslands.
„Sem til að mynda eitt og sér breytir þessari mynd. Þannig að það er enginn sem í raun treystir sér til að spá hver flugumferðin nákvæmlega verður til Íslands eftir því sem líður á sumarið,“ segir Katrín Jakobsdóttir. En í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að allt að fjörtíu þúsund manns hafi farið dag hvern um Keflavíkurflugvöll fyrir kórónuveirufaraldurinn. En nú er horft til að um þrjátíu þúsund manns gætu farið um flugvöllinn í hverjum mánuði fram á haustið.