Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst aftur 17. júní en tveir leikir verða á dagskrá á Þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga. Manchester City tekur á móti Arsenal og Sheffield United sækir Aston Villa heim í nýliðaslag.
Um er að ræða leiki sem þessi lið áttu inni. Þau hafa leikið 28 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hin sextán liðin hafa leikið 29 leiki hvert.
Helgina þar á eftir, 20.-21. júní, verður svo 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar leikin.
Ekki hefur verið leikið í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Alls eru 92 leikir eftir af tímabilinu 2019-20.
Stefnt er að því að spila leikina sem eftir eru í ensku úrvalsdeildinni á aðeins sex vikum. Vonast er til þess að hægt verði að klára deildina 2. ágúst.
Í gær var ákveðið að heimila aftur æfingar með snertingum. Sú tillaga var samþykkt einróma á fundi félaganna í ensku úrvalsdeildinni.