Erlent

Þúsundir mótmæla í Washington

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mótmælendur í Washington í dag.
Mótmælendur í Washington í dag. Ap/Alex Brandon

Þúsundir mótmælenda marsera nú um götur Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, til þess að mótmæla lögregluofbeldi og kynþáttafordómum.

Dauði George Floyd, óvopnaðs blökkumanns, í haldi lögreglunna í Minneapolis í síðustu viku hefur valdið mikilli reiði í Bandaríkjunum og víða um heim. Hann lést eftir að lögreglumaður hvíldi hné sitt á hálsinum á honum í um níu mínútur á meðan þrír aðrir lögregluþjónar stóðu hjá. Þeir hafa nú verið ákærðir fyrir morð.

Í Washington hafa yfirvöld búið sig undir að mikill fjöldi mótmælenda komi saman í dag, laugardag, til þess að halda mótmælunum áfram. Á sama tíma og ákveðið hefur verið að afvopna þjóðvarðliða og senda hermenn heim frá borginni.

Horfa má á beina útsendingu NBC News af mótmælum víða um Bandaríkin hér fyrir neðan.

Á sama tíma greinir Reuters frá því að snemma í morgun að bandarískum tóíma hafi nokkur hundruð hermönnum verið skutlað í sex rútum á lóð Hvíta hússins, væntanlega til þess að tryggja öryggi þess Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Á vef CNN má einnig sjá kort af því hvernig víggirðingar í kringum Hvíta húsið hafa náð yfir stærra svæði á undanförnum dögum.

Búist er við að meginþungi mótmælanna verði við Hvíta húsið þar sem talið er að hópar muni safnast saman eftir því sem líður á daginn.

Þúsundir manna komu saman í borgum í Ástralíu og hundruð í Tókýó og Seúl til þess að sýna bandarísku mótmælendum samstöðu sína í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þá hafa sambærileg mótmæli farið fram víða um Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×